You are currently viewing Lokunarstyrkur – viðbótarlokunarstyrkur

Lokunarstyrkur – viðbótarlokunarstyrkur

Um lokunarstyrki og viðbótarlokunarstyrki gilda lög nr. 38/2020, um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, og lög nr. 55/2020, um breytingu á fyrrnefndu lögunum.

Þeir einstaklingar og lögaðilar sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi sem hófst fyrir 1. febrúar 2020 og var gert að stöðva starfsemina í sóttvarnarskyni gátu átt rétt á lokunarstyrk/viðbótarlokunarstyrk úr ríkissjóði að uppfylltum ýmsum skilyrðum. Stofnanir, byggðasamlög og fyrirtæki í eigu ríkis eða sveitarfélaga gátu ekki sótt um lokunarstyrk.

Lokunarstyrkur/viðbótarlokunarstyrkur telst til skattskyldra tekna rekstraraðila samkvæmt lögum um tekjuskatt.

Lokunarstyrkir 1 og 2 – lokanir frá 24. mars 2020

  • Almennur umsóknarfrestur um lokunarstyrki var til og með 1. september 2020 og um viðbótarlokunarstyrki til og með 1. október 2020.

Framlengdur umsóknarfrestur

  • Skattinum var nýlega heimilað að taka til afgreiðslu umsóknir sem berast eftir þann tíma allt til 30. júní 2021. Hafi rekstraraðili ekki sótt um innan almenns frests en telur sig geta átt rétt á lokunarstyrk vegna lokana í mars til maí 2020 er hægt að senda erindi til Skattsins þar um en slíkar umsóknir er ekki unnt að senda rafrænt. 
  • Viðbótarlokunarstyrkir áttu við um þá rekstraraðila sem gert var að stöðva starfsemi sína í sóttvarnarskyni lengur en til 4. maí 2020, þ.e. annars vegar sundlaugar sem máttu hefja starfsemi að nýju 18. maí 2020 og hins vegar skemmtistaði, krár, spilasali og líkamsræktarstöðvar sem máttu hefja starfsemi að nýju 25. maí 2020. Aðrir rekstraraðilar gátu ekki sótt um viðbótarlokunarstyrki.

Lokunarstyrkur 3 – lokanir frá og með 18. september 2020

  • Um þá lokunarstyrki sem samþykktir voru á Alþingi fimmtudaginn 5. nóvember með lögum 119/2020, gilda að mörgu leyti sömu skilyrði og um eldri lokunarstyrki en þó með töluverðum breytingum.
  • Breyting hefur verið gerð á reglum um upphaf styrkhæfrar starfsemi, lögin gilda nú um lokunartímabil eins og þau eru ákveðin frá og með 18. september en ekki fyrirfram tiltekin lokunartímabil og fleiri möguleikar eru nú á því hvernig tekjufall er reiknað.
  • Fjárhæð þessa lokunarstyrks miðast við rekstrarkostnað á hverju lokunartímabili en þó ekki hærri en 600.000 kr. á hvern launamann sem starfaði hjá launagreiðanda í upphafi sama tímabils fyrir hverja 30 daga lokun. Jafnframt eru settar skorður við heildarfjárhæð styrkja.

 

Lesa meira